Með því að ýta á samþykkja eða halda áfram að nota vefinn samþykktir þú skilmála um vafrakökur (cookies). Frekari upplýsingar um vafrakökur má finna á allaboutcookies.org. Samþykkja
- Lónsá á Langanesi -
Karfan er tóm

Lónsá á Langanesi
Icelandic Fishing Guide
+354 779 2220
info@icelandfishingguide.com www.icelandfishingguide.com
Lónsá á Langanesi Lónsá á Langanesi Lónsá á Langanesi

Lónsá - Lítil perla sem geymir stóra fiska


Lónsá er lítil veiðiperla á Langanesi. Lónsá er í um 5 mínútna fjarlægð frá Þórshöfn og rennur áin í sjóin stutt frá bænum Ytra Lóni.

Lónsá hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir góða sjóbleikju veiði en bæði sjóbirtingur og staðbundin urriði hefur aukist mikið síðustu ár.

Lónsá hentar einstaklega vel til þurrfluguveiða en einnig veiðist mjög vel á hefðbundnar straumflugur og púpur.

Á fyrri helmingi tímabilsins í apríl, maí er aðalega veiði á ósasvæðinu og í Sauðaneslóni ásamt staðbundinum urriða ofar í ánni. Í maí og júni getur verið hreint æfintýraleg veiði á bleikju og sjóbirting sem lónir á ósasvæðinu í æti og við þær aðstæður geta menn nánast verið að fá fisk í hverju kasti.

Stærstu bleikjurnar byrja einnig að ganga upp ánna í byrjun júní en frá miðjum júní og út júlí er alla jafna besti tíminn í ánni til að veiða stórar bleikjur þar til eftir miðjan júlí þegar urriða veiði fer einnig að aukast þar sem urriðar úr Sauðanes Lóni og Ytra Lóni færa sig upp ánna til hrygningar. Á haustin má einnig merkja smáar sjóbirtings og laxgöngur en haustveiðin hefur í raun og veru ekki verið nógu vel rannsökuð fram að þessu.

Þrátt fyrir litla ástundun síðustu ár hefur veiði á stöng frá landi Ytra Lóns verið í kringum 500 silungar ár hvert.
Nú er heimilt að veiða í allri ánni og er hægt að veiða lang leið upp á heiði í Lónsá, Þverá og Hólslæk en þar eru einnig tvö grunn stöðuvötn sem tengjast læknum. Það liggur vegur upp með ánni að túninu við Grund en þaðan þarf að ferðast til að veiða hana á tveimur jafnfljótum.

Í gegnum tíðina hefur verið netaveiði í Sauðanes lóni á hverju vori en henni hefur nú verið hætt og verður því eingöngu veitt á stöng á svæðinu frá sumrinu 2014.

Þetta er fallegt lítil á sem getur geymt mikið magn af fiski í ósnortinni náttúru Langanes.


Veiðisvæði

Ósasvæði Lónsár ásamt svæðinu við Ytra Lón hafa löngum verið mest veidda svæði árinnar og er því lýsing á því. Varðandi efri svæðin þá borgar sig bara að ganga ánna og veiða sig áfram því fiskur getur leynst víða.

Lónsáin við Ytra Lón (sv.2): Svæðið einkennist af fjölbreyttum veiðistöðum, hefðbundnum hyljum og lygnum og breiðum á milli flúða. Hér er veiðivon víða á milli veiðistaða en það verður að fara varlega til að fæla ekki fiskinn. Á svæðinu er urriði, sjóbirtingur og sjóbleikja og veiðiaðferðir eru allt frá púpum til straumflugna og þurrfluguveiði. Stundum gefur vel að vaða varlega á móti straumi og kasta upp ánna á steina og straumskil og nota tökuvara. Nettur veiðibúnaður. t.d. nr. 3-4 er skemmtilegastur og gott er að reyna að teyma fiskinn strax frá tökustaðnum því fleiri fiskar geta leynst þar. Kvöldin geta gefið vel en þá er fiskur oft ekki eins styggur.

Sauðanesósinn (sv.1) er gjöfulasta veiðsvæðið á vorin og fram eftir júlí. Hér er göngufiskurinn að skófla í sig marfló sem berst inn á flóði en það nær upp undir hólmann sem er neðst til vinstri á myndinni. Hér verður að beita misjöfnum brögðum eftir sjávarföllum og púpur gefa mjög vel, sérstaklega ef þær líkjast marfló, s.s. Presturinn og Héraeyra. Oft gefa hefðbundnar straum-flugur vel, t.d Bleik og blá, Black Ghost og Heimasæta. Hér er mikið af sjóbirtingi og sjóbleikju sem er allt að 7 pd. en algengast er 1-3 pd. Brúarhylinn sjálfan má skyggna ofan af brúnni og ef varlega er farið kemur ekki styggð að honum. Á flóði koma gjarnan nýir fiskar inn. Eftir áralanga reynslu af veiðum í ósnum eru fyrri leigutakar sammála um að engar reglur gilda um hvenær á föllum best er að veiða. Regla sem einhver hefur reynt að setja hefur yfirleitt verið afsönnuð stuttu seinna. Ef stórstreymt er geta samt orðið vandræði við veiðarnar á háflæði, í um 2 tíma, vegna þaragruggs.

Sauðaneseyja (sv.1). Veiðistaðurinn (nr.4) byrjar þar sem Lónsáin kemur í lónin og nær töluvert uppeftir. Þaðan og upp að göngubrúnni rennur áin lygn. Kíllinn (nr.5) er á miðri leið upp að Ytra Lóni. Hér er ríki staðbundna urriðans sem felur sig undir bökkunum eða í sefi og hann getur verið vænn, 4-5 pd. 1-3 pd. er algengast. Á þessu svæði þarf að fara varlega þegar komið er að ánni svo fiskurinn verði ekki var við veðmanninn. Þó að myndin sýni ekki svæðið upp að gömlu brúnni (staður nr.6) er alltaf fiskur á milli svæðanna. Það er að mestu hægrennandi kíll með fáum flúðum og hafa svartar flugur gefið hér, t.d. Zulu en það er um að gera að prófa eitthvað nýtt. Urriðinn getur verið styggur í sólskini svo veiði í dumbungi eða á kvöldin er vænleg og svo að kasta og draga meðfram bökkunum.


Veiðireglur

Veitt er á svæðinu frá 1. Maí til 30. Oktober.

Seldar eru stakar stangir frá morgni til kvölds.

Veiðitími eru 12 tímar á sólahring frá 07:00 til 24:00 í samráði við veiðivörð.

Seldar eru 4 stangir á dag í Lónsá en einnig er hægt að veiða í Sauðaneslóni, Bæjarvatni og Ytra Lóni og er ekki takmörkun á stangarfjölda þar.

Eingöngu er veitt á flugu í Lónsá, Sauðaneslóni og Sauðanesós en leyfilegt er að veiða á spún og maðk í Bæjarvatni og Ytra Lóni.

Kvóti í Lónsá, Sauðaneslóni og Sauðanesós er 1 fiskur á dag undir 45cm á hverja stöng. Í Bæjarvatni og Ytralóni er hins vegar enginn kvóti á fiski undir 45 cm. Sleppa skal öllum fiski yfir 45cm undantekningarlaust, líka í Bæjarvatni og Ytralóni, og ef stór fiskur drepst að lokinni viðureign ber að tilkynna leigutaka eða veiðiverði strax áður en haldið er áfram að veiða.


Veiðihús

Á Ytra Lóni búa Sverrir Möller og Mirjam Blekkenhorst ásamt börnum sínum. Þau sjá um veiðivörslu. Þau bjóða jafnframt upp á gistingu og veitingar ásamt margvíslegri afþreyingu. Sími: 468-1242 / 846-6448, Fax. 468-1242, netfang: info@ytralon.is. Heimasíða:www.ytralon.is.


Annað

Veiðimönnum ber að fara sérstaklega varlega við bakka frá 20. maí til 20. júní vegna æðarvarps. Náttúran er einstök á Langanesi og er mikið fuglalíf við ána og lónin. Þar ber mest á kríum, æðarfugli og ýmsum andategundum, ásamt gæsum og rjúpu. Yfir þessu veisluborði vakir fálkinn og stundum sést brandugla á kvöldin. Því skal gæta þess að fara varlega, sérstaklega á varptíma og einnig í og eftir sauðburð þegar lömb eru á túnum.

Meðalveiði um 500 silungar.

Iceland Fishing Guide er leigutaki Lónsár. Fyrir frekari upplýsingar hafið samband í síma 6601642 eða á netfang matti@icelandfishingguide.com


Skilmálar
Veiðileyfi fást ekki endurgreidd. Kaupandi skuldbindur sig til að skrá alla veiði samviskusamlega í þar til gerða veiðibók.

Veiðileyfi Veiðibók Skrá veiði